Aðferðin

kírópraktík líkt og í öðrum fögum er hægt að starfa á marga ólíka vegu. Það er siðferðileg skylda þeirra sem nema fræðin að velja þær leiðir sem líklegastar eru til hámarksárangurs fyrir þá sem til kírópraktorsins leita. Við hjá Kírópraktík teljum að Gonstead kerfið þjóni hagsmunum sjúklinga  best. Kerfið var fundið upp og þróað af Clarence Selmer Gonstead, D.C.(1898-1978)

Nánar um Dr. Gonstead

Dr. Gonstead var norskættaður og ólst upp á sveitabæ í Willow Lake í South Dakota fylki í Bandaríkjunum. Hann hafði verkfræðilegan bakgrunn en varð ungur alvarlega veikur af liðagigt. Gonstead var lengi rúmfastur og illa gekk að fá bata þar til hann fékk hjálp frá J.B.Olsson sem var starfandi kírópraktor í nágrenninu. Óhætt er að segja að þarna urðu vatnaskil í lífi þessa unga manns. Hann ákvað að eyða því sem hann ætti ólifað í að starfa sem kírópraktor.

Dr. Gonstead vann gríðarlega rannsóknarvinnu og nýtti þekkingu sína og reynslu til þess að öðlast fáheyrðan skilning á stoðkerfi og taugakerfi mannsins. Dr. Gonstead skildi hið tvíþætta hlutverk stoðkerfisins, að hýsa taugakerfið og að bera þunga líkamans. Þessi vinna leiddi af sér Gonstead kerfið og undirstöðulögmálið sem það byggir á. Rétt eins og húsgrunnur er undirstaða þeirrar byggingar sem á honum stendur er mjaðmagrindin undirstaða hryggjarsúlunnar sem á henni situr. Dr. Gonstead gerði sér grein fyrir því að ef liðir færu úr skorðum neðarlega í stoðkerfinu hefði það miklar afleiðingar í för með sér fyrir liði ofar í kerfinu. Hann sá að alltaf væri nauðsynlegt að rannsaka alla hryggjarsúluna, ekki aðeins svæðið þar sem sársauki kæmi fram.

Dr. Gonstead hafði einstakan skilning á því hvernig liðir líkamans hegðuðu sér við eðlilegar aðstæður, hvað gerðist þegar þeir yrðu fyrir hnjaski og misstu stöðu sína og einnig hvernig best væri að færa þá til betri vegar. Hann þróaði fimm rannsóknarleiðir sem allar miða að því að finna þá hryggjarliði sem misst hafa stöðu sína, hafa bólgnað og hafa truflandi áhrif á taugakerfið. Einnig skóp hann aðferðir til þess að færa til betri vegar liði þá sem þurft gætu meðhöndlun kírópraktors. Þessar aðferðir eru notaðar af Gonstead kírópraktorum til þessa dags.

Aðferðir Dr. Gonstead

1. Hitamæling

Dr. Gonstead vissi að þegar brjósk bólgnar fylgir því hiti sem nær upp á yfirborð húðarinnar. Hitinn er auðveldlega mælanlegur. Í samstarfi við sérfræðinga fyrirtækisins EDL, hannaði hann mæli sem enn þann dag í dag er notaður lítið breyttur. Kírópraktorinn rennir honum niður bak sjúklingsins á ákveðinn máta til þess að staðsetja hitann sem fylgir bólgunni og þar með liðinn sem leitað er að. Ákveðin tegund af mælingu bendir til þess að liður sé í vandræðum með tilheyrandi truflun á taugastarfsemi. Fyrir sjúklinginn er þetta svipað og að finna tvo fingur renna létt niður bakið sitt hvorum megin við hryggjarsúluna.

2. Snertigreining

Mjúk og varfærin snerting er notuð á ákveðinn hátt til þess að finna og staðsetja bólgur yfir liðum, finna eymsli og annað sem getur verið upplýsandi fyrir kírópraktorinn.

3. Hreyfiprófun

Hreyfigeta liða er prófuð eftir ákveðnum reglum. Liðir sem orðið hafa fyrir hnjaski, misst hafa stöðu sína og eru bólgnir eru líklegir til þess að hafa minni hreyfigetu en heilbrigðir liðir á svæðinu í kring.

4. Röntgenrannsókn

Dr. Gonstead tók röntgenmyndir sem sýna alla hryggjarsúluna á einni filmu með sjúklinginn standandi í álagsstöðu. Annars vegar sést súlan frá hlið, hins vegar er horft aftan á hana. Þessi myndunaraðferð leggur áherslu á hryggjarsúluna sem eina heild og samband mekanískra eininga innan stoðkerfisins. Þær gefa nákvæmar upplýsingar um stöðu liðanna, mögulegt slit og almennt ástand stoðkerfisins.

5. Sjónræn greining

Kírópraktorinn notar augun til þess að leita að hlutum sem sýnilegir eru og geta hjálpað til við greiningu. Nefna má ástand húðar, almenna líkamsstöðu, hreyfigetu, göngulag og fleira.

Allt þetta ásamt greinargóðri sjúkrasögu er notað til þess að finna þá liði sem eru í vandræðum og taka vel ígrundaða ákvörðun um það hvernig best er að laga þá. Hafa ber í huga að þegar kírópraktor hnikar liðnum til er einungis einn liður hreyfður og leitast er við að fara stystu leið til baka í hina eðlilegu stöðu. Þannig fæst bestur árangur. Trufluninni er þannig létt af taugakerfinu sem þá getur óhindrað stjórnað líkamanum.

Óhætt er að segja að Dr.Gonstead hafi haft gríðarleg áhrif á stéttina. Orðspor hans óx hratt. Fljótlega varð hann þekktur í fylkinu, svo innan Bandaríkjanna og loks út um allan heim fyrir að ”hjálpa sjúkum að ná heilsu” eins og hann lýsti því. Hann varð kírópraktor kírópraktoranna í bókstaflegri merkingu.

Hann vann í Mt. Horeb í Wisconsin fylki, í litlum bæ sem taldi í þá daga u.þ.b. 1500 manns. Vinnuvika hans var sex og hálfur dagur og vinnudagurinn 16 til 20 klukkustundir. Þetta sagði hann vera eðlilegan norskan vinnudag. Hann ráðlagði ungu fólki að gera vinnuna að leik sínum svo því leiddist ekki. Algengt var að hann sinnti 300 ólíkum einstaklingum á degi hverjum. Fólk ferðaðist að meðaltali 160 kílómetra leið til þess að fá hjálp hans. Hann flutti starfsemi sína tvisvar þar sem það húsnæði sem hann hafði gat ekki þjónað öllum þeim fjölda sem vildi hitta hann.

Árið 1964 byggði hann hina frægu Gonstead clinic. Hún var ógnarstór, um það bil 1.800 fermetrar. Biðstofan tók 106 manns í sæti, þar voru 11 meðferðarherbergi, röntgenaðstaða og rannsóknarstofur af ýmsu tagi. Við hliðina var hótel (Karakahl Inn) sem innihélt 76 herbergi, matsal, sundlaug, gufubað, ráðstefnusali og svo framvegis fyrir þá sem komu langt að. Næst heimili hans var svo flugbraut sem hann notaði til þess að fljúga til þeirra sem einhverra hluta vegna áttu ekki heimangengt.

Afrek Dr. Gonstead

Sagt var að eftir skoðun gæti hann nefnt flest það sem hrjáði sjúklinginn og einnig það sem myndi hrjá hann síðar fengi sá hinn sami ekki viðeigandi kírópraktíska meðhöndlun. Dr. Gonstead er frægastur fyrir Gonstead kerfið, undirstöðulögmálið og fyrir að hafa hannað einstaklega nákvæma aðferð sem notuð er innan kerfisins til þess að leiðrétta hálsliði (Gonstead cervical chair adjustment). Hér á eftir eru upptalin nokkur af afrekum þeim sem hans er enn minnst fyrir. Þessi listi er þó engan veginn tæmandi.

  • Hann hannaði og endurhannaði mörg þeirra verkfæra sem notuð eru í faginu í dag, bekki, stóla o.s.frv.
  • Hann hannaði hitamælinn sem er mikilvægt upplýsingatæki (nervoscope).
  • Hann hannaði röntgenvél fyrir kírópraktora sem gat skotið geislanum lárétt. Það hafði aldrei verið gert áður og gerði stéttinni kleift að taka myndirnar með sjúklinginn í standandi stöðu.
  • Hann var frumkvöðull í notkun röntgenmynda. Hann hannaði svokallaðar „full spine“ myndir, (14” x 36”), tæki og ýmsar aðferðir sem notaðar eru í því sambandi.
  • Hann setti fram rökrétta aðferð til þess að greina röntgenmyndir þar sem línur voru dregnar á myndirnar á kerfisbundinn hátt til þess að draga fram upplýsingar.
  • Hann var fyrstur manna í vísindasamfélaginu til þess að halda því fram og sanna að spjaldliðirnir væru hreyfanlegir.
  • Hann þótti í sinni tíð mikill sérfræðingur þegar kom að virkni taugakerfisins.
  • Hann sá um ævina yfir eina milljón ólíkra sjúklinga sem komu alls staðar að úr heiminum.
  • Dr. Gonstead var eitt sinn spurður að því hvaða leyndarmál væri á bak við árangur hans. Hann svaraði: ”Ekkert leyndarmál, bara mikill fjöldi ánægðra sjúklinga.”

Það tók langan tíma og margt fólk til þess að sannfæra Dr. Gonstead um að mikilvægt væri að hann kenndi öðrum það sem hann einn kunni. Það hafðist að lokum og afraksturinn eru námskeið sem haldin eru fyrir nema og fulllærða enn í dag. Þessi námskeið eru þau námskeið innan stéttarinnar sem lengst hafa haldið velli.

Dr. Clarence Selmer Gonstead telst tvímælalaust eitt af stórmennum tuttugustu aldarinnar. Hann vann ómetanleg þrekvirki í þágu mannkyns.