Ótrúleg lækning, kírópraktík hjálpaði mér með verki í hægri fæti

Það mun hafa verið í nóvember á síðastliðnu ári, að ég fór að finna fyrir verkjum í hægri fæti. Ég gerði lítið í málinu fyrst, en svo fóru verkirnir að ágerast og voru nær óbærilegir, þannig að ég átti erfitt með gang. Hafði ég þá samband við lækni, sem taldi þetta vera brjósklos í baki og fór ég í sjúkraþjálfun með það fyrir augum að lagfæra þetta. En þetta vildi ekki lagast, bara versnaði, svo að ég þurfti oft að liggja fyrir – gat ekki gengið, og hvorki staðið né setið.

Var ég þá sendur til sérfræðings á Borgarspítalanum, sem taldi við fyrstu sýn að þetta væri brjósklos og sendi hann mig í segulómmyndatöku. Nokkrum dögum síðar hafði hann samband og sagði að myndirnar sýndu að bakið á mér væri í fínu lagi og þetta myndi lagast af sjálfu sér á næstu mánuðum.

Við þessar fréttir féllust mér hendur – var alveg viðþolslaus af verkjum og að ég ætti eftir að vera svona næstu mánuðina !!!!

Góður vinur minn, Gísli Magnússon íþróttakennari í Vestmannaeyjum, benti mér þá á Egil Þorsteinsson, kírópraktor. Hann hefði hjálpað sér og ef til vill gæti hann hjálpað mér líka.

Ekki vissi ég hvað kírópraktor var og satt að segja hélt ég að það væri einhvert “kuklari” eða “hómópati.” Var nú ekki betur að mér í þessum efnum en svo.

En ég hugsaði með mér, það er engu að tapa – og svona get ég ekki verið þjáður áfram. Fékk ég því tíma hjá Agli, sem tók mynd af bakinu á mér og sýndi mér og það var ekki fögur sjón. Meira og minna allt úr sér gengið, sérstaklega neðstu hryggjarliðirnir – ótrúlegt að ekkert skyldi sjást af þessu við myndatökuna á Borgarspítalanum.

Síðan byrjaði meðferðin og satt að segja þurfti ég ekki marga tíma hjá honum þar til ég fann mun til hins betra. Þetta hafði áhrif.

Í stuttu máli. Þá var ég í meðferð hjá honum í nokkrar vikur og eftir það fannst mér ég vera alheilbrigður. Er alveg verkjalaus – get gengið eins og ég vil – verð aðeins að passa mig að sitja ekki of lengi í einu, hreyfa mig aðeins með vissu millibili.

En sem sagt, fyrir mér var þetta eins konar kraftaverk og get ég ekki verið annað en þakklátur og sáttur við þann bata sem ég hef fengið – þökk sé Agli.

Ég vil líka geta þess að þau hjón bæði er vinna á stofunni, eru einstaklega ljúf og góð í viðkynningu og taka manni alltaf svo vel, nánast eins og maður hafi þekkt þau til margra ára.

Kærar þakkir fyrir mig.

Magnús Jónasson

Vestmannaeyjum