Kírópraktík hjálpaði mér upp úr hjólastólnum, með lömun, droppfót, taugakippi og óvirka þvagblöðru

Febrúar, 2006 – Blöðrur á eggjastokkum hægra megin sprungu, alltaf verkur í náranum hægra megin.

Júní, 2007 – Endalaus verkur í náranum hægra megin…verkur jókst mikið og í kjölfarið kom þróttleysi og minnkuð matarlist í nokkrar vikur fyrir kast…innlögn á sjúkrahús í fjóra daga og sprautuð niður með verkjastillandi lyfjum í einn og hálfan sólarhring…úthald ekkert og verkir.

Maí, 2008 – Sams konar atvik og árinu áður. Þessu kasti fylgdi líka smá dofi í hægri fæti.

Júní, 2009 – Sjóntaugabólga…vaknaði sjónlaus á vinstra auga, sjónin kom til baka með steragjöf eftir tíu daga en ekki 100%.

Nóvember, 2009 – Ég varð að hætta í körfubolta sökum jafnvægisleysis og dofa í hægri fæti.

Endalausir verkir í hægri mjöðm og dofi niður lappirnar.

Apríl, 2010 – Miklir verkir í hægri mjöðm frá janúar fram í apríl…ekki verkir við gang. Um miðjan apríl gat ég ekki sofnað vegna verkja, sofnaði á endanum og vaknaði máttlaus, smá dofin og mjög kvalin í hægri fæti og mjöðm og dró löppina á eftir mér. Fékk taugaverkjalyf á Selfossi sem virkaði ekki, fór á slysó daginn eftir. Þar voru mér gefin sterk verkjalyf í æð. Ég beið svo í viku eftir segulómun af baki og mjöðm sem kom eðlilega út. Beiðni um rannsókn var send á taugadeild. Eftir mánaðar bið hafði ekkert heyrst þrátt fyrir ítrekanir. Ég fór á bráðamóttökuna og var lögð inn. MRI rannsókn var framkvæmd sem kom eðlilega út. Mér var sagt að ég myndi lagast með endurhæfingu á Reykjalundi. Á sjúkraþjálfunarbeiðninni stóð: Taugaröskun.

Ég var í sex vikur á Reykjalundi…engin breyting varð á fætinum, aðeins aukið úthald.

Júní 2010, til apríl 2011, sálfræðimeðferð.

Október, 2010 – Viku fyrir kast, auknir verkir og þróttleysi. Lögð inn vegna mikilla verkja, versnunar og dofa í fæti, andliti og hægri hendi. Einnig voru erfiðleikar með þvagblöðru. Ég gat ekki kastað þvagi og eftir tvær vikur, þegar blaðran var komin í 400 – 600 ml. var tappað af henni. Því fylgdi mikill sársauki og verkur upp í nýru. Mér var neitað um þvaglegg. Ég fór til þvagfæraskurðlæknis og gat ekki kastað þvagi sökum þess hve bólgin blaðran var og full af loftbólum. Ég var útskrifuð af sjúkrahúsi með sjúkdómsgreiningarnar, hugbrigðaröskun og tímabundna starfræna máttminnkun í hægri útlim. Ég var send til geðlæknis á meðan á innlögninni stóð. Mér var tjáð að ekkert óeðlilegt hefði komið í ljós í rannsóknum.

Ég var í mikilli sjúkraþjálfun en virknin í löppinni kom ekki til baka. Ég dró hana á eftir mér og átti erfitt með gang og jafnvægi. Úthald var nánast ekkert og dofi í hendi og andliti.

Desember, 2011 – Úthald minnkaði mikið viku fyrir kast og versnun á hægri hluta líkamans var mikil. Hægri helmingurinn var máttlaus og dofinn og erfiðleikar með þvagblöðru…lögð inn á ísafirði og sprautuð niður í tvo daga til þess að sofa kastið úr mér. Ég lá inni í eina viku, var svo send heim. Var með þvaglegg í tvær vikur. Inn á milli var hann fjarlægður í tilraunaskyni en það kom ekki vel út. Tvisvar fylltist blaðran upp í 1000 ml.

Ástand líkamans eftir þetta kast var orðið mjög slæmt. Löppin var nánast ónothæf til göngu og ég var farin að fá dofa í vinstri fót og mikla taugakippi og stífleikinn í líkamanum var orðinn helmingi verri. Fóturinn var farinn að blána og var alltaf kaldur eftir þetta kast.

Febrúar, 2012 – Byrjaði eins og hin köstin. Hægri helmingur líkamans máttlaus og dofinn og hægri höndin alveg máttlaus í tíu daga. Fingurnir voru krepptir, ég gat ekki rétt úr þeim…þvagteppa, þvagleggur í sjö daga. Ég var svo send á taugadeildina á Ísafirði eftir mikla baráttu frá Þorsteini lækni á Ísafirði við að koma mér þangað, en deildin hafði áður neitað að taka við mér. Eftir mikla baráttu fékkst það í gegn að tekið yrði sýni af mænuvökva, ekkert óeðlilegt kom fram. Fótleggur var þá mjög blár og kaldur. Sjúkdómsgreining: Starfræn röskun.

September, 2012 – Hægri helmingur líkamans máttlaus og dofinn, vinstri fótur einnig. Engin húðtilfinning í lærum, nára og rasskinnum…þvagteppa, þvagleggur í tíu daga. Ég fór sjálf á bráðamóttökuna á Ísafirði eftir tveggja vikna bið. Sama sjúkdómsgreining og enginn áhugi á því að hjálpa mér. Fóturinn var orðinn mjög blár og kaldur og taugakippirnir í líkamanum orðnir mjög miklir. Sama sagan, starfræn röskun og átti að lagast með sjúkraþjálfun og stífri meðferð hjá geðlækni. Eftir þetta kast var ég alveg bundin hjólastól. Ástand líkamans var orðið mjög alvarlegt. Ég gat ekkert gert nema með aðstoð.

Á milli kastanna var mikið þróttleysi og ekkert úthald, þrátt fyrir mikla sjúkraþjálfun.

 

Erfiðleikar sem fylgdu köstunum og stóðu yfir á milli kastanna: 

Mikill dofi í kinnum – dofi í hægri hendi – dofi í rasskinnum og niður lappirnar – 30, til 40 klósettferðir á dag, þvagblaðran tæmdist aldrei – mjög miklir verkir í hægri mjöðm og fótum – taugakippir – stífleiki í vöðvum – erfiðleikar við kyngingu – verkir í þvagblöðrunni – jafnvægisleysi – tvísýni – droppfótur – mjög miklir taugakippir – svaf mikið – orkan engin – bláir og kaldir fætur – mikill bjúgur á líkamanum – hár líkamshiti fylgdi köstunum en enginn sviti – fingur fljótir að hvítna og dofna í smá kulda – þoldi engan kulda.

 

12. desember, 2012, Egill Þorsteinsson, kírópraktor. Ég var alveg bundin hjólastól þegar ég hitti hann fyrst.

3. skiptið – þvagblaðran eins og ný, tæmdist alltaf og klósettferðir tíu sinnum á dag.

4. skiptið – Taugakippirnir hættu alveg og minnkandi bjúgur.

5. skiptið – Gat spennt lærvöðvann á vinstri fæti í fyrsta sinn síðan í september, 2012.

7. skiptið – Gat spennt lærvöðvann og hreyft tærnar á hægri fótlegg í fyrsta sinn í þrjú ár.

8. skiptið – Gat gengið með tvær hækjur og enginn droppfótur sjáanlegur.

10. skiptið – Gat gengið með eina hækju.

12. skiptið – Gat gengið án hækja.