Kírópraktík hjálpaði mér með verki í mjöðm, rasskinn, læri, kálfa, og vefjagigt

Fyrir sex árum hélt ég að ég myndi aldrei geta farið í gönguferð framar. Ég fékk svo mikla verki í vinstri mjöðm og niður í fót að ég lá eiginlega í rúminu í þrjá daga eftir að hafa farið í hálftíma gönguferð – ég sem hafði alltaf verið mikill göngugarpur, fjallageit og skokkað marga kílómetra á dag án þess að blása úr nös. Tilhugsunin um að eiga aldrei eftir að ganga á fjöll aftur, vera úti í náttúrunni á tveimur jafnfljótum og fara bara beint af augum án þess að hafa áhyggjur af því að komast til baka, var hræðileg og ég fann lífsgæðin hrapa við þessa tilhugsun. En hún var raunveruleg og gigtarsérfræðingurinn sem ég fór til staðfesti hinn illa grun: Hættu að gera þér vonir um að stunda fjallgöngur og göngutúra yfirleitt, nema smárölt í nágrenni heimilisins. Skokk – gleymdu því ! Að fara á hestbak – ekki góð hugmynd. Þú ert með slitgigt í mjóhrygg og þrír liðir eru alveg fastir saman (lét ekki taka mynd en greindi þetta samt), vinstri mjöðmin er greinilega mjög slitin og þess vegna liggur verkur niður vinstri rasskinn (eins og verið væri að rífa hana af), aftan í læri, niður kálfann og niður í tær svo að sumar nætur vaknaði ég við verki sem voru eins og hnífsstunga og sinadráttur í einum kokkteil. Engar myndir teknar. Greind með vefjagigt ofan á slitgigtina og ég hugsaði með mér hvort ég ætti eftir að enda eins og þessar “gigtarkellingar” langt fyrir aldur fram, föst við heimilið, takandi pillur sem gerðu mig feita, andlega dofna og fúla… full af fordómum sem sagt ! En eftir að hafa leyft sérfræðingnum að sprauta sterum og deyfilyfi inn í liðinn, sem lagði mig í rúmið í þrjá daga því fóturinn “dó” og verkirnir ætluðu mig lifandi að drepa, hugsaði ég með mér að nei – þetta gengi ekki svona og ég ætlaði ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Og einu sinni sem oftar hlýddi ég frænku minni sem alltaf gefur mér góð ráð og fór til kírópraktors, sem sagt Egils Þorsteinssonar, og sé ekki eftir því núna. Um fimm mánuðum eftir að ég kom til hans fyrst get ég gengið í MARGA klukkutíma án þess að leggjast í rúmið á verkjatöflum ! Þvílík breyting. Myndirnar sem Egill tók sýna að það er ekki vottur af sliti í mjóhryggnum, hvað þá mjöðminni, en það sem er að er að hægri fótleggurinn er 7 mm. styttri en sá vinstri og eftir að hafa gengið á tveimur mislöngum í rúm fjörtíu ár er ekki nema von að maður sé orðinn skakkur og eitthvað láti undan ! Ég er komin með upphækkun í alla skó og svo hefur Egill auðvitað farið sínum heilandi höndum um hrygg-vesalinginn í mér ! Ég get vottað það að mér líður betur núna en síðustu sex til sjö ár. Bara það að vita að maður hefur þetta frelsi til að hreyfa sig, að maður getur treyst á eigin líkama og það að fá frí frá verkjum í smá stund (þeir eru nú ekkert farnir enn, líkaminn þarf tíma til að losna við þá, taugakerfið þarf að læra að gleyma þeim…) og finna að þeir minnka frá degi til dags, er ólýsanlega yndislegt og eykur LÍFSGÆÐI manns, sem er það mikilvægasta til að vera fullgild manneskja í samfélaginu.

Takk, Egill og Agnes !