Kírópraktík hjálpaði mér með verki í jarka, hálsi, herðum og mjóhrygg

Takk fyrir hjálpina !

Mig langar með bréfi þessu að segja ykkur sem lesið, hvernig mér var hjálpað eftir erfið meiðsli.

Í júní árið 2009 var ég að klöngrast í stiga uppi í mæni á húsinu mínu. Skyndilega rann stiginn á undirstöðunni og ég lá kylliflatur á maganum á fósturjörðinni. Ég komst að því þegar ég reyndi að standa upp að ég hafði slitið hásin á hægra fæti. Nú tók við átta vikna hækjuganga. Þegar ég losnaði loks við gifsið kom fljótlega í ljós að hægra hnéð hafði einnig skaddast í nauðlendingunni. Þrátt fyrir meiðslin í hásininni og hnénu var ég aðallega að drepast í jarkanum og var nánast ógöngufær, (Jarki: ytri hluti fótar frá litlu tá að hæl). Ég fór í óteljandi myndatökur á hné, rist og hásin. Ekkert fannst sem gæti orsakað þessa verki í jarkanum. Ónefndur bæklunarlæknir sprautaði mig nokkrum sinnum með rándýrum sterasprautum, án árangurs. Það liðu 6 mánuðir og staða mín óbreytt. Íþróttakennarinn sjálfur óvinnufær heima, eins og hölt hæna. Konan mín átti frumkvæði að því að eitthvað var gert í málinu. Hún fór í símaskrána, fann þar nafnið Fótatak, Laugavegi 163 C, pantaði tíma í göngugreiningu og sveinninn mætti á svæðið skömmu síðar. Og vitiði, þarna hófst ferli sem kom mér aftur til heilsu. Guðrún Svava, eigandi stofunnar, sá strax að ég þyrfti upphækkun og jafnvel innlegg í skó, þar sem hægri fóturinn væri eitthvað styttri. Eins og við þekkjum fellur eplið sjaldnast langt frá eikinni. Guðrún Svava hvatti mig til að fara í könnunar-skoðun hjá Agli Þorsteinssyni kírópraktor, sem væri með aðstöðu í sama húsi. Egill er nefnilega sonur hennar. Jæja, átti nú að fara fram eitthvað fjölskyldu-plott ? Nei, aldeilis ekki. Þarna var ég kominn í góðar hendur. Egill byrjaði á því að taka af mér standandi röntgenmyndir þar sem stoðgrindin mín blasti við mér í fyrsta skipti á ævinni í fullri stærð, með öllum sínum gæðum og veikleikum. Svona sýn hafði ég ekki séð síðan í gamla daga þegar ég var að læra til íþróttakennarans og stúderaði alvöru beinagrindur. Við Egill fórum í gegnum stöðu mína á tjaldinu, þar sem hann sýndi mér ýmsa gamla áverka, skakka hryggjarliði og hallandi mjaðmargrind, sem sást vel á iðnaða-hallarmáli sem hann lagði að mjaðmarspöðunum. Hægri fóturinn var 9 mm styttri en hinn. Þarna skýrðust jarkasárindin, endalausir verkir í mjóhrygg og almenn leiðindi í hreyfigetu.

Til að gera langa sögu stutta, þá hefur Egill hjálpað mér það mikið að nú get ég farið í langar gönguferðir, hættur að fá verki í háls, herðar, jarka og mjóhrygg. Nú er staðan sú að Egill sér um að hnykkja mig reglulega, ca. á tveggja mánaða fresti, í mínu tilviki. Mér finnst alltaf eins og ég sé aðal gæinn á svæðinu þegar ég mæti. Frábært viðmót og mjög sanngjarnt verð fyrir frábæra viðgerð á kallinum. Takk fyrir mig !

Gísli Magnússon,

íþróttakennari í 44 ár