Kírópraktík hjálpaði mér með bakvandamál

Fyrsta sem ég heyrði af kírópraktík var þegar maðurinn minn fór í keng í baki fyrir dáldið mörgum árum síðan, bara við það eitt að bogra við að leggja rafmagnslagnir heima fyrir. Þá pantaði vinkona okkar tíma fyrir hann hjá Agli Þorsteinssyni og hann kom honum á fætur aftur.

Nokkrum árum síðar gerði hann það sama fyrir mig, pantaði tíma fyrir mig hjá Agli, en á þeim tíma var ég búin að vera í svæðanuddi a.m.k. 1 sinni í viku í ein 2 ár og fann lítinn sem engan bata við því sem var að hrjá mig í bakinu. Ég er með dálitla hryggskekkju og var búin að vera slæm öðru hverju síðan ég var í menntaskóla, og öll kyrrsetuvinna og seta á skólabekk hefur farið illa í bakið á mér.

Það er skemmst frá því að segja að eftir að hafa stundað bekkinn hjá Agli stíft í einhvern tíma var ég orðin alveg góð í bakinu og hef nánast undantekningarlaust farið til hans 1 sinni í mánuði til að halda þessum bata við. Það er segin saga að ef ég svíkst um þá versna ég iðulega og því reyni ég að passa að klikka ekki á þessu mánaðarlega stefnumóti okkar Egils. Stundum hef ég farið aukalega ef eitthvað hefur komið upp á hjá mér, t.d. ef ég hef fengið þursabit.

Ég er áhugamanneskja um hollt og heilbrigt líferni og það hefur verið óvæntur bónus að ýmislegt fróðlegt kemur iðulega upp í samtölum okkar á meðan á meðferð stendur – þannig hef ég í gegnum árin lært ýmislegt nýtt um eitt og annað sem við kemur líkamanum og stoðkerfinu og hvernig stórmerkilegt samspil allra þátta heldur okkur mönnunum uppréttum og gangandi í lífi og starfi.