Kírópraktík hjálpaði mér að ná kúlunni upp úr holunni

Þurfti aðstoð við að ná kúlunni upp úr holunni.

Fyrir líklega tólf árum var ég afskaplega illa haldinn í bakinu, neðri hlutanum, niðri við mjöðm. Læknar voru búnir að úrskurða að líklega væri þetta brjósklos sem ekki yrði lagfært nema með aðgerð.

Þetta var náttúrulega afleitt fyrir mann sem eyddi nær öllum frítíma sínum á golfvellinum og háði mér verulega. Lét mig þó hafa það. Einhverju sinni þetta sumar var ég á höfuðborgarsvæðinu og tók þátt í golfmóti suður í Garðabæ, með gömlum skipsfélaga. Ég gat ekki beygt mig með góðu móti til að tía upp og félagarnir í hollinu urðu að taka kúluna upp úr holunni fyrir mig. Þá var sveiflan ekki ýkja fögur, meira rykkir og skrykkir og árangurinn vitanlega eftir því. Mér tókst samt að ljúka hringnum og að honum loknum sagði skipsfélaginn gamli við mig: “Þetta ætla ég ekki að horfa upp á lengur. Nú hringi ég í kírópraktorinn minn og fæ tíma fyrir þig.” Ég sagði honum eins og var, að ég hefði litla trú á slíku en hann lét sig ekki (enda fádæma þrjóskur) og hringdi í kírópraktorinn. Þá kom í ljós að sá var í sumarfríi um þær mundir en skipsfélaginn gafst ekki upp og hringdi í annan sem var reiðubúinn að líta á mig. Sá hét Egill Þorsteinsson og til hans mætti ég strax daginn eftir. Svo vel vildi til að ég var í fríi í vikutíma og næstu fimm daga mætti ég til hans, einu sinni og stundum tvisvar á dag. Og viti menn, um næstu helgi tók ég þátt í golfmóti, án þess að finna fyrir eymslum eða þurfa aðstoð meðspilaranna. Sveiflan lagaðist líka (þó svo félagar mínir segi að hún hafi aldrei verið fögur og verði það væntanlega aldrei).

Á þeim tólf árum sem liðin eru síðan þetta gerðist, hef ég svo verið fastagestur hjá kírópraktornum mínum. Fer til hans nánast í hvert sinn sem ég þarf að fara til Reykjavíkur, þetta sex til átta sinnum á ári, og hann sér um að halda mér gangandi. Læknar hafa ekki minnst meira á brjósklos eða aðgerðir.

Að sjálfsögðu er ég þakklátur fyrir þetta. Fyrir tólf árum var ég mjög vantrúaður á ágæti þessarar starfsemi. Sú vantrú er löngu horfin og í dag er ég afskaplega sáttur, sérstaklega fyrir það að geta stundað mitt tómstundagaman vandræðalaust, nema hvað höggin mættu vera færri. En jafnvel bestu kírópraktorar geta ekki bætt úr því.

Sigurgeir Jónsson

Vestmannaeyjum