Zdrowie

Ýmislegt kemur upp í huga fólks þegar orðið heilsa er nefnt. Að vera laus við sjúkdóma og einkenni þeirra, að vera í góðu líkamlegu formi, borða góða, heilsusamlega fæðu og það að líða vel. Allt eru þetta mikilvægir hlutir sem allir tengjast heilsu okkar og fólk nefnir þá iðulega þegar það er spurt um hluti sem tengjast heilsu þeirra.

Hvað þýðir heilsa?

Þegar orðinu er flett upp í læknisfræðilegri orðabók kemur það á óvart að ekkert af ofangreindu er nefnt. Tökum dæmi úr Taber’s Cyclopedic Medical Dictionary, edition 17, 1993. Þar segir orðrétt um skilgreiningu WHO eða Alþjóðlegu Heilbrigðisstofnunaninnar á enska orðinu health:

„A state of complete physical, mental or social well-being and not merely the absence of disease or infirmity.”

Í lauslegri þýðingu má segja að orðið heilsa sé skilgreint á þann máta að hún sé ástand þar sem fullri virkni sé náð, líkamlega, andlega og félagslega og að hún sé ekki einungis fjarvera sjúkdóma og einkenna þeirra. Athygli vekur að fyrrnefndir hlutir koma ekki við sögu og sérstaklega er tekið fram að heilsa sé ekki það að vera laus við sjúkdóma og einkenni þeirra. Skilgreiningin gefur í skyn að heilsa okkar snúist um að líkamleg, andleg og félagsleg virkni okkar sé sem allra best.
Algengt er að fólk tengi heilsu sína við líðan. Sé hún slæm finnst fólki það vera „veikt.” Sé líðanin aftur á móti góð finnst fólki það vera heilbrigt. En hversu áreiðanleg er þessi viðmiðun? Staðreyndin er sú að fólk getur verið alvarlega veikt en verið einkennalaust. Gott dæmi um það eru ferli þau sem enda í hjartaáföllum eða heilablóðföllum.

Sé viðmiðunin aðeins líðan, er manneskja þá heilbrigð daginn áður en hún fær hjartaáfall eða heilablóðfall? Auðvitað ekki! Á hinn bóginn má velta því fyrir sér hvort sjúkdómseinkenni séu ávallt merki um slæma heilsu. Tökum dæmi: manneskja borðar fæðu sem hún veit ekki að er skemmd. Viðbrögð líkamans eru að kasta fæðunni upp og losa sig þannig við hana. Líður manneskjunni vel á meðan? Nei. Margir myndu lýsa því þannig að hún væri „veik,” en er hún það? Þrátt fyrir augljós sjúkdómseinkenni er rétta svarið nei. Uppköstin eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs líkama við skemmdri fæðu. Við sjáum af þessu að manneskja getur virst heilbrigð en í raun átt skammt eftir ólifað vegna ferlis í líkamanum sem er fremur hljóðlátt og einnig að stundum þegar við upplifum kvalir getur það verið eðlileg starfsemi líkamans og þar með merki um heilbrigði á ákveðnu sviði.

Staðreyndin er sú að mörg sjúkdómseinkenni eru í eðli sínu aðlögun að innri eða ytri aðstæðum og ekki er alltaf skynsamlegt að bæla hana niður. Í fyrrnefndu dæmi með skemmda matinn, gæti manneskjan tekið lyf sem kæmi í veg fyrir uppköstin, sem einnig gerði það að verkum að henni liði betur. Væri hún þá heilbrigðari? Að sjálfsögðu ekki! Hvers vegna ekki? Vegna þess að heilsa snýst um virkni, ekki einungis um það hvernig okkur líður. Sjúkdómseinkenni eða fjarvera þeirra er í besta falli takmarkaður mælikvarði á heilsu. Og þá er við hæfi að spyrja: Hvað er það sem stjórnar virkni líkamans?

Heilsa og kírópraktík

Kírópraktík kemur að heilsu á annan máta en allar aðrar heilbrigðisstéttir. Flestar hafa þær það að leiðarljósi að meðhöndla sjúkdóma og sjúkdómseinkenni. Kírópraktík byggir heimspeki sína og gjörðir á nokkrum óumbreytanlegum lögmálum. Hún kannast við þá „alheimsgreind” (universal intelligence) sem gefur öllu lífi á jörðinni eiginleika sína. Lifandi verur hafa þann meðfædda eiginleika að starfsemi þeirra leitast alltaf við að halda jafnvægi í starfsemi allra líkamskerfa (homeostasis). Segja má að þetta sé nokkurs konar „innborin eða meðfædd greind” (innate intelligence).

Taugakerfið, sem samanstendur af heilanum, mænunni og taugunum er óumdeilanlega stjórnkerfi líkamans. Snemma í fósturþróuninni tekur það völdin og stjórnar ferlinu eftir það. Það nær til allra líkamskerfa líkamans og stjórnar þeim. Verði hryggjarliðir fyrir hnjaski sem veldur því að þeir missi stöðu sína, getur bólgan sem fylgir í kjölfarið sett pressu á nærliggjandi taugar. Þetta truflar starfsemi taugakerfisins, valdið óeðlilegri virkni í vefjum þeim sem taugakerfið stjórnar og er af þeim sökum neikvætt fyrir heilsu og tilveru viðkomandi. Þetta ástand er á fagmálinu kallað „vertebral subluxation.” Strangt til tekið merkir þetta að hryggjarliður hafi ekki farið úr liði, en farið úr skorðum. Ástand þetta getur auðveldlega verið sársauka og einkennalaust en er líklegt til að valda einkennum fyrr eða síðar. Burtséð frá líðan og sjúkdómasögu líta kírópraktorar svo á að fólk sé betur komið án taugapressu. Takmarkið með starfi kírópraktorsins er því ávallt það sama. Að finna liðinn sem misst hefur stöðu sína og pressar taugakerfið, hnika liðnum til baka stystu leið til baka í eins rétta stöðu og mögulegt með það að markmiði að endurheimta stöðu liðarins og virkni og að létta pressunni af taugakerfinu sem getur þá óáreitt stjórnað líkamanum án truflunar.